Íslenskur heilpóstur
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf

Hafa ber í huga að þessi grein var skrifuð árið 1979 í GRÚSK nr. 7, tímarit fyrir safnara.

Íslenzk bréfspjöld 100 ára
    Í lok þessa árs, nánar til tekið þann 18. desember, eru liðin eitt hundrað ár frá því að fyrst voru gefin út íslenzk bréfspjöld.
    Þann 15. apríl 1879 sendi Hilmar Finsen, landshöfðingi, ráðuneyti Íslands í Kaumannahöfn, beiðni þess :efnis að upp verði tekið það nýmæli í íslenzkum póstmálum að búa til sérstakt einfalt bréfspjald með áprentuðu frímerki til nota innanlands.
    Beiðni landshöfðingja hlaut jákvæðar undirtektir og 10. október sama ár voru sett lög þessu til staðfestingar. Prentsmiðju Nielsen og Lydicke í Kaupmannahöfn var falið að annast gerð bréfspjaldanna og hefur greinilega verið gengið rösklega fram í því verki, því 18. desember næstan á eftir birtist svohljóðandi auglýsing:

,,Samkvæmt lögum frá 10. okt. þ.á. (Stjórnartíð. A. 21), hafa verið prentuð eyðublöð undir brjefspjöld, útbúin póstmerkjum og fást þau í öllum pósthúsum landsins og kosta 5 aura hvert. Brjefhirðinga- og póstafgreiðslumenn skulu gjöra skil fyrir brjefspjöldum þeim, sem þeir fá til útsölu á sama hátt og fyrir póstmerkjum.
Reykjavík 18. desember 1879
Hilmar Finsen
Jón Jónsson ''


Ekki er mikið vitað um undirtektir almennings við þessari nýung en víst er að árið eftir, þ.e.a.s. 1880, voru gefin út tvö ný bréfspjöld. Var annað að verðgildi 8 aurar, er gilti sem burðargjald til Færeyja og Danmerkur, hitt spjaldið var að verðgildi 10 aurar og gilti það sem burðargjald til annara landa innan Alþjóðapóstsambandsins.
Árið 1883 voru svo gefin út tvöföld bréfspjöld, þar sem borgað var fyrirfram undir svar. Öll þessi spjöld voru prentuð hjá prentsmiðju H. H. Thiele í Kaupmannahöfn.
Ekki verður að sinni farið út í það að rekja nánar hinar ýmsu útgáfur, sem á eftir komu og þaðan af síður afbrigði íslenzkra bréfspjalda, en fullvíst má telja að margir safnarar hafi snemma gert sér grein fyrir söfnunargildi þeirra. Vitað er að a.m.k. um aldamótin voru margir þeirra, er þá stunduðu einhverskonar viðskipti með frímerki, farnir að senda viðskiptavinum sínum erlendis, bréfspjöld af ýmsum gerðum, bæði notuð og ónotuð.
Frímerkjasafnarar voru um þær mundir beinlínis hvattir til söfnunar bréfspjalda af framleiðendum frímerkjaalbúma, sem gerðu ráð fyrir þeim á síðum albúmanna. En eftir því sem fjöldi bréfspjalda jókst varð fyrirferð þeirra skiljanlega meiri og svo fór, illu heilli, að í albúmunum var aðeins gert ráð fyrir bréfspjaldaafklippum. Það varð hinsvegar til þess að mjög dró úr áhuga manna á bréfspjöldum, sem eðli málsins samkvæmt ættu þó að fylgja hverju landasafni.
Sem sérstakt söfnunarsvið eru íslenzk bréfspjöld ákaflega skemmtileg til rannsókna, hvort sem um er að ræða ónotuð eða notuð spjöld. Hér er algjörlega afmarkað svið, að því leyti að engin útgáfa hefur átt sér stað frá árinu 1941 ef undan eru skilin Loftbréfin, sem gefin voru út á árunum 1949-1958 en flestum finnst sjálfsagt að fella þau inn í safn bréfspjalda. Fjölbreytileiki spjaldanna í útgáfum og afbrigðum er slíkur að nær endalaust má bæta í safnið, að ekki sé nú talað um þegar tekið er til við þau notuð. Þá koma til sögunnar stimplar af flestum gerðum auk þess að þá má flokka spjöldin t.d. eftir burðargjaldi á hverjum tíma og er ekki að efa að slík söfnun eykur þekkingu hvers safnara langt út fyrir svið bréfspjaldanna.
Vafalaust hefur það átt sinn þátt í afskiptaleysi íslenzkra safnara gagnvart bréfspjöldum að upplýsingar í formi handbóka eða verðlista hafa ekki verið nægilega aðgengilegar og nánast engar til á íslenzku.
Hinir kunnu safnarar, Sigurd Ringström frá Svíþjóð og Robert W. Scherer frá Bandaríkjunum, rannsökuðu báðir íslenzk bréfspjöld mjög nákvæmlega og gerðu lista yfir þau, hvor á sinn hátt. Þótt þar megi finna haldbeztu upplýsingarnar, sem nú má fá um íslenzk bréfspjöld, er ekki að efa að þær má bæta á marga vegu ef allir áhugasamir safnarar taka höndum saman og koma á framfæri þeirri vitneskju er þeir kunna að búa yfir.
Hálfdan Helgason

Home

Tenglar innanhúss
Nokkrar gamlar greinar
um íslensk bréfspjöld

Burðargjöld bréfspjalda


Tenglar utanhúss
Landssamband íslenskra
frímerkjasafnara
FIP Postal Stationery
Commission

The Postal Stationery Society
Postal Stationery of Denmark
Min ven Toke Nørby,
Denmark