Íslenskur heilpóstur
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf

GRÚSK 4. árg., 3. tbl. 1980 (Nr. 10)
Hugleiðingar um nokkur bréfspjöld
Á síðastliðnu ári (1979) voru eitt hundrað ár liðin frá því að fyrst voru gefin út íslenzk bréfspjöld. Af því tilefni ritaði ég nokkrar línur í 3. tölublað 3. árgangs þessa blaðs og rakti lítillega aðdraganda bréfspjaldanna auk þess sem ég lýsti þeirri skoðun minni að íslenzk bréfspjöld væru einkar skemmtileg til rannsókna. Ég gat þess einnig að haldbeztu upplýsingar, sem fá má um íslenzk bréfspjöld væri að finna í handbókum þeirra S. Ringströms frá Svíþjóð og R.W. Scherers frá Bandaríkjunum, enda styðjast flestir safnarar íslenzkra bréfspjalda við þær.
Þrátt fyrir ágæti beggja þessara handbóka fer ekki hjá því að ýmislegt orki tvímælis, a. m. k. hafa efasemdir varðandi eitt og annað vaknað hjá mér eftir að hafa safnað bréfspjöldum og grandskoðað um all-langt skeið.
Árið 1880 voru gefin út tvö bréfspjöld, 8 aura og 10 aura. Sé litið í skrár þeirra Ringströms og Scherers má sjá að þeir geta tveggja gerða af hvoru verðgildi og að þau hafi síðan verið endurprentuð árið 1883 og þá hafi reyndar þriðja gerðin komið í ljós. Vissulega er það rétt að verðgildin bæði eru af þremur mismunandi gerðum. Sú staðreynd að allar gerðirnar virðast jafn algengar með yfirprentuninni „Í GILDI / ’02—’03.” hefur mér hinsvegar fundist benda til þess að endurprentunar árið 1883 hafi ekki verið þörf heldur hafi hinar mismunandi gerðir verðgildanna verið prentaðar allar í einu og sennilega í samfellu líkt og 5 aura spjöldin árið 1879 (mynd 1). Þessi grunur minn varð því að vissu er ég við lestur Stjórnartíðinda fyrir árið 1880 rakst á „Brjef ráðgjafans fyrir Ísland til landshöfðingja um brjefspjöld til Danmerkur og utanríkislanda”, dags. 27. maí 1880, en þar má lesa eftirfarandi: „Ráðgjafinn hefir... látið prenta 20 þúsundir brjefspjalda, hvert á 8 aura til afnota við póstviðskipti milli Danmerkur og Íslands og ennfremur jafnstórt upplag af 10 aura brjefspjöldum til afnota við póstviðskipti milli íslenzkra pósthúsa og útlendra póstumdæma þeirra er burðargjald undir brjefspjöld nemur 10 aurum til.” Jafnframt segist ráðgjafinn hafa gert ráðstafanir til „að yður (þ. e. landshöfðingjanum) verði send með þeirri Íslandsferð póstgufuskipsins Fönixar, sem nú er í vændum 19.600 brjefspjöld af hverri tegund fyrir sig...”
Þegar bréf þetta er haft í huga og jafnframt sú staðreynd, sem fram kemur í „Skýrslu um póstrekstur á Íslandi 1906-1926” að upplag þeirra bréfspjalda, sem prentuð voru fram til aldamóta hafi einungis verið 76.985 stk., má hver sem vill trúa því að þegar árið 1883 hafi þótt ástæða til þess að bæta við upplag 8 og 10 aura spjaldanna.

Fyrsta íslenzka bréfspjaldið, sem gefið var út árið 1879, var að verðgildi 5 aurar og gilti fyrir burðargjald innanlands. Að nýju voru 5 aura spjöld gefin út á árunum 1889 og 1890 og þótt þau séu auðþekkjanleg frá fyrstu útgáfunni eru þau þó eins að því leyti að í annari línu er stutt þverstrik í ð í að. Árið 1891 kom enn út 5 aura bréfspjald, sem hægur vandi er að greina frá fyrri 5 aura spjöldum því mismunur þessara spjalda allra er fólginn í verðgildisreit þeirra. Hinsvegar er texti þeirra sá sami. Af síðustu útgáfunni eru til tvær gerðir og er munurinn sá að önnur þeirra er með stuttu þverstriki í ð í að eins og á fyrri útgáfum (mynd 2), en hin gerðin er með löngu þverstriki (mynd 3).


Í bréfspjaldaskrám þeirra Ringströms og Scherers er gert ráð fyrir því að þessar tvær gerðir hafi komið út samtímis árið 1891. Það hefur sýnt sig að síðarnefnda gerðin (langt strik í ð) er miklum mun sjaldgæfari hvort heldur er notuð eða ónotuð og við skoðun þeirra notuðu spjalda, sem ég hefi komizt yfir kemur í ljós að þau eru öll stimpluð eftir aldamót. Reyndar er það elzta, sem ég hefi yfir að ráða, stimplað 6.9.1901. Hinsvegar er þessi gerð miklu algengari með yfirprentuninni Í GILDI heldur en sú með stutta strikinu. Ég vil því leyfa mér að halda því fram að gerðin með langa strikinu í ð sé síðari prentun og hafi ekki komið til Íslands fyrr en nokkru eftir aldamót og upplagið hafi að mestu verið yfirprentað „Í GILDI/’02-’03.”

Mynd 4
Mynd 5
Mynd 6
Mynd 7
Tvöföld bréfspjöld voru fyrst gefin út árið 1883 og voru að verðgildi 5, 8 og 10 aurar. Á árunum 1889 og 1890 voru þessi verðgildi gefin út að nýju og þótt fljótt á litið sé um endurprentun að ræða er þó auðsær munur á, sem ekki verður farið út í að skýra að þessu sinni. Aftur á móti er seinni 10 aura útgáfan til í tveimur gerðum og í áðurnefndum skrám er munurinn skýrður á þann veg að önnur lína spjaldsins (UNION POSTALE UNIVERSELLE) sé ýmist 36 eða 37 mm. Þetta er auðvitað alveg rétt. Munurinn er hinsvegar svo lítill að hann verður ekki greindur án mælingar. Til þess að vera ekki háður mælistiku við skoðun þessara spjalda, er gott að geta stuðzt við eftirfarandi atriði, sem komið hafa í ljós við nána athugun allmargra spjalda. Á spjöldum með 36 mm línu er hvít lína í jaðri verðgildisreitsins brotin neðarlega til vinstri á forspjaldi (mynd 4). Á svarspjaldinu er hinsvegar hak í jaðar verðgildisreitsins ofarlega til hægri auk þess að hvítur blettur er í sporöskjunni hægra megin fyrir miðju (mynd 5). Á spjöldum með 37 mm línu er verðgildisreiturinn heill og óskertur á forspjaldi (mynd 6) en á svarspjaldi er efra vinstra horn verðgildisreitsins örlítið stýft (mynd 7).

Eins og ég gat um í upphafi þessarar greinar þykir mér ýmislegt orka tvímælis er fram kemur í handbókum eða skrám þeirra mætu manna, Ringströms og Scherers. Svo hlýtur einnig að vera um þær hugleiðingar mínar, sem hér hafa verið settar á blað. Væri ég þakklátur þeim er eitthvað vildu til málanna leggja, hvort heldur væri til að hrekja mál mitt eða styðja.
Hálfdan Helgason.

Home

Tenglar innanhúss
Nokkrar gamlar greinar
um íslensk bréfspjöld

Burðargjöld bréfspjalda


Tenglar utanhúss
Landssamband íslenskra
frímerkjasafnara
FIP Postal Stationery
Commission

The Postal Stationery
Society

Postal Stationery
of Denmark