Icelandic Postal Stationery
Single Postcards Double Postcards Lettercards Printed Matter Cards Aerogrammes
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf

Hafa ber í huga að þessi grein var skrifuð árið 1983 í GRÚSK nr. 12, tímarit fyrir safnara.
Bear in mind that this article was written in 1983.
T for two . . .
Já, hver, sem kominn er á miðjan aldur, kannast ekki við slagarann góða: „Tea for two ..." o.s.frv.? Að minnsta kosti kom hann upp í huga mér er ég var að fara í gegnum bréfspjaldasafnið mitt og var allt í einu kominn með í hendurnar spjöldin tvö, sem þessu greinarkorni fylgja. Bæði eru þau kyrfilega stimpluð með T-stimpli, sem samkvæmt reglum póstsins átti að nota tíl stimplunar óborgaðra eða vanborgaðra bréfa. Já, „T for two and two for T" og dí-dí-dú og dú-dú-dí og við skulum líta nánar á þessi spjöld.

Fyrra spjaldið, 5 aurar Kristján IX, er svarhluti tvöfalds spjalds frá 1902, og sent til Þýzkalands í byrjun febrúar árið 1906. Númerastimpillinn 49 segir okkur að kortið er stimplað á Húsavík, eins og reyndar kemur fram á bakhlið þess og síðan er kortið leiðarstimplað í Reykjavík 8.2. 1906. Á þessum tíma er burðargjaldið til Þýzkalands 10 aurar og þar af leiðandi er spjaldið stimplað með T stimpli, en hvaða tákn er í efra vinstra horni spjaldsins og hvað þýðir áletrunin 6¼ cts, sem er neðan við burðargjaldsreitinn? Jú, greinilegt er að farið hefur verið eftir fyrirmælum póstmeistara, sem send voru út með Póstblaðinu nr. 2 árið 1903, en þar stendur: „óborguð eða vanborguð bréf til útlanda skal stimpla með T-stimpli eða skrifa á þau T, og í efra hornið vinstra megin á framhliðinni skal rita með tölu, hve margfalt bréfið er. Póstmaður sá, sem sendir vanborguð bréf til útlanda, skal skrifa við hliðina á frímerkjunum með bleki, það sem vantar á að bréfið sé fullborgað, til Danmerkur, Noregs og Svíaríkis í kr. og a., en til annarra landa í frönkum og centimum eftir hlutfallinu 20 aurar = 25 centímur.

Bréfið er sem sagt einfalt og 6¼ cts jafngilda þeim 5 aurum, sem á vantar til þess að fullborgað sé undir spjaldið. Á spjaldið hefur verið skrifað með stóru letri og í bláum lit, talan 10. Það er sú upphæð, sem viðtakandi spjaldsins er krafinn um, þ.e. 5 aurarnir sem á vantar auk refsigjalds að sömu upphæð svo þótt T-stimpluð bréf séu skemmtileg nú til dags hefur það trúlega ekki verið sérlega vinsælt að fá slík bréf í „den tid".
Síðara spjaldið er reyndar úr sömu útgáfu og hið fyrra, þ.e. Kristján níundi en verðgildið er 10 aurar og spjaldið sent til Danmerkur. En það er T-stimplað og viðtakandinn krafinn um 20 aura eins og sjá má á spjaldinu. Hvernig stendur á því?

Burðargjald bréfspjalda til Danmerkur á þessum tíma var aðeins 8 aurar en spjaldið er stimplað 21.7.1906. Jú, ef við skoðum merkið vinstra megin á spjaldinu sjáum við að þar er hið sjaldgæfa Caritas merki Barnahælisins í Reykjavík, sem út var gefið 1904. Í Póstblaðinu frá 1905 má sjá eftirfarandi tilkynningu Póstmeistarans í Reykjavík: „Barnahælið í Reykjavík hefir gefið út merki til að líma á bréf. Á merkinu er fálki í bláum feldi. Hvert merki kostar 5 a. Stjórn félagsins mælist til þess, að póstmenn taki að sér útsölu merkjanna og styðji hana. Séu merki þessi límd á spjaldbréf, skal borga undir þau eins og almenn bréf, sbr. reglugjörð um notkun pósta 5. gr. bls. 17, 4. lið."
Burðargjald bréfa til Danmerkur á þessum tíma var 10 aurar og þótt spjaldið beri það verðgildi nýtist það ekki og viðtakandi krafinn um tvöfalt burðargjald. Það hefur honum vafalaust þótt súrt í broti en öðru máli gegnir um mig, þetta þykir mér gott spjald!
Hálfdan Helgason
Home

Web links
Some old articles (mine) on
Icelandic Postal Stationery

Postal Stationery Rates


Interesting links
Icelandic Philatelic Society
FIP Postal Stationery
Commission

The Postal Stationery Society
Postal Stationery of Denmark
My Danish friend Toke Nørby

This website is made and maintained by Hálfdan Helgason - Reykjavík - Iceland