Já, hver, sem kominn er á miðjan aldur, kannast ekki við slagarann góða: „Tea for two ..." o.s.frv.? Að minnsta kosti kom hann upp í huga mér er ég var að fara í gegnum bréfspjaldasafnið mitt og var allt í einu kominn með í hendurnar spjöldin tvö, sem þessu greinarkorni fylgja. Bæði eru þau kyrfilega stimpluð með T-stimpli, sem samkvæmt reglum póstsins átti að nota tíl stimplunar óborgaðra eða vanborgaðra bréfa. Já, „T for two and two for T" og dí-dí-dú og dú-dú-dí og við skulum líta nánar á þessi spjöld.

Fyrra spjaldið, 5 aurar Kristján IX, er svarhluti tvöfalds spjalds frá 1902, og sent til Þýzkalands í byrjun febrúar árið 1906. Númerastimpillinn 49 segir okkur að kortið er stimplað á Húsavík, eins og reyndar kemur fram á bakhlið þess og síðan er kortið leiðarstimplað í Reykjavík 8.2. 1906. Á þessum tíma er burðargjaldið til Þýzkalands 10 aurar og þar af leiðandi er spjaldið stimplað með T stimpli, en hvaða tákn er í efra vinstra horni spjaldsins og hvað þýðir áletrunin 6¼ cts, sem er neðan við burðargjaldsreitinn? Jú, greinilegt er að farið hefur verið eftir fyrirmælum póstmeistara, sem send voru út með Póstblaðinu nr. 2 árið 1903, en þar stendur: „óborguð eða vanborguð bréf til útlanda skal stimpla með T-stimpli eða skrifa á þau T, og í efra hornið vinstra megin á framhliðinni skal rita með tölu, hve margfalt bréfið er. Póstmaður sá, sem sendir vanborguð bréf til útlanda, skal skrifa við hliðina á frímerkjunum með bleki, það sem vantar á að bréfið sé fullborgað, til Danmerkur, Noregs og Svíaríkis í kr. og a., en til annarra landa í frönkum og centimum eftir hlutfallinu 20 aurar = 25 centímur.
|
|
Bréfið er sem sagt einfalt og 6¼ cts jafngilda þeim 5 aurum, sem á vantar til þess að fullborgað sé undir spjaldið. Á spjaldið hefur verið skrifað með stóru letri og í bláum lit, talan 10. Það er sú upphæð, sem viðtakandi spjaldsins er krafinn um, þ.e. 5 aurarnir sem á vantar auk refsigjalds að sömu upphæð svo þótt T-stimpluð bréf séu skemmtileg nú til dags hefur það trúlega ekki verið sérlega vinsælt að fá slík bréf í „den tid".
Síðara spjaldið er reyndar úr sömu útgáfu og hið fyrra, þ.e. Kristján níundi en verðgildið er 10 aurar og spjaldið sent til Danmerkur. En það er T-stimplað og viðtakandinn krafinn um 20 aura eins og sjá má á spjaldinu. Hvernig stendur á því?
Burðargjald bréfspjalda til Danmerkur á þessum tíma var aðeins 8 aurar en spjaldið er stimplað 21.7.1906. Jú, ef við skoðum merkið vinstra megin á spjaldinu sjáum við að þar er hið sjaldgæfa Caritas merki Barnahælisins í Reykjavík, sem út var gefið 1904. Í Póstblaðinu frá 1905 má sjá eftirfarandi tilkynningu Póstmeistarans í Reykjavík: „Barnahælið í Reykjavík hefir gefið út merki til að líma á bréf. Á merkinu er fálki í bláum feldi. Hvert merki kostar 5 a. Stjórn félagsins mælist til þess, að póstmenn taki að sér útsölu merkjanna og styðji hana. Séu merki þessi límd á spjaldbréf, skal borga undir þau eins og almenn bréf, sbr. reglugjörð um notkun pósta 5. gr. bls. 17, 4. lið."
Burðargjald bréfa til Danmerkur á þessum tíma var 10 aurar og þótt spjaldið beri það verðgildi nýtist það ekki og viðtakandi krafinn um tvöfalt burðargjald. Það hefur honum vafalaust þótt súrt í broti en öðru máli gegnir um mig, þetta þykir mér gott spjald!
Hálfdan Helgason
|