Hafa ber í huga að þessi grein var skrifuð árið 1984 í GRÚSK nr. 16, tímarit fyrir safnara.
Yfirprentuni Í GILDI/'02-'03. á bréfspjöldum
Allir frímerkjasafnarar kannast við „Í GILDI” yfirprentunina frá 1902-’03. Hefur hún orðið mörgum frímerkjafræðingnum tilefni til rannsókna af ýmsu tagi og nægir ef til vill að nefna athuganir, sem birtust í Kohl-handbókinni á sínum tíma, en á þeim rannsóknum hafa svo flestar síðari tíma rannsóknir byggzt. Þær athuganir snerta þó í engu yfirprentanir á bréfspjöldum þótt merkilegt sé, og það er, mér vitanlega, ekki fyrr en handbókarhöfundarnir S. Ringström og R.W. Scherer (sjá Grúsk nr. 7, bls. 20) gefa út sínar skrár, sem upplýsingar varðandi yfirprentunina „Í GILDI” koma á prent.
Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að gera hér lítillega grein fyrir þessari yfirprentun og þá eingöngu það sem varðar bréfspjöldin. Þeim, sem fræðast vilja nánar um yfirprentunina og forsögu hennar, skal hér bent á að hvergi fá þeir betri upplýsingar en í ágætri bók Jóns Aðalsteins Jónssonar, Íslenzk frímerki í hundrað ár. Er þar sérstakur kafli um yfirprentunina Í GILDI ’02-’03 á bls. 269.
Frá því í október 1902 og fram í júlímánuð 1903 voru þágildandi bréfspjöld, auraspjöldin, yfirprentuð með áletruninni Í GILDI ’02-’03. Fór prentunin fram í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík, en áður hafði farið fram athugun á því hvor prentsmiðjanna, Ísafoldarprentsmiðjan eða Félagsprentsmiðjan, skilaði betra letri. Ekki er mér kunnugt hvort enn er til sýnishorn þess leturs, sem Ísafoldarprentsmiðjan bauð en miðað við það misræmi sem fram kemur í letri Félagsprentsmiðjunnar, leyfist manni trúlega að hugsa margt.
Augljóst er að eftirliti með prentuninni hefur verið ábótavant hjá Félagsprentsmiðjunni, því að fram hafa komið þrjár mismunandi gerðir yfirprentana, þar sem bil milli neðri brúna efri línu og efri brúnar neðri línu er ýmist 7.25 mm (gerð I samkvæmt Ringström), 5.2mm (gerð II) eða 5.7mm (gerð III). Athyglisvert er að í handbók Scherers er aðeins getið um yfirprentanir I og II og virðist sem gerð III hafi alveg farið fram hjá honum. Hefur það orðið til þess að handbók hans er ónothæf hvað varðar þann kaflann a.m.k.
Ekki held ég að það leiki nokkur vafi á því að bréfspjöld, yfirprentuð með gerð III, eru afar sjaldgæf. Gerð II er hins vegar algengust og einkum virðist vera tiltölulega mikið til af tvöföldum 10 aura bréfspjöldum.
Vegna þess mikla verðmunar, sem er á þessum gerðum, þótti mér fýsilegt að reyna að finna leið til þess að greina auðveldlega þar á milli án þess að þurfa að mæla bilið á milli línanna. Við skoðun yfirprentaðra bréfspjalda má sjá eftirfarandi einkenni:
Á gerð I (7.25 mm) eru úrfellingarmerkin jöfn að stærð og punkturinn á eftir ’03 er stór. Sjá mynd 1. Algengt er að fyrra úrfellingarmerkið sé brotið eins og sést á mynd 2. Á gerð III (5,7 mm) eru bæði úrfellingarmerkin jöfn að stærð og smágerðari en á gerð I. Þá er aldrei punktur á eftir ’03, svo sem sjá má á mynd 3.
Nokkuð erfitt er að greina gerð III frá gerð II. Í fyrsta lagi er bilið milli lína næstum hið sama, munar aðeins hálfum millimetra og í öðru lagi má finna gerð II, einkum á einföldum 5 aura spjöldum, þar sem sátrið hefur brotnað, svo að burtu hafa fallið bæði úrfellingarmerki, bandstrik og punktur. Þegar aðeins punktur hefur fallið brott, getur óvanur e.t.v. álitið að um sé að ræða gerð III. Og hvað er þá til ráða? Lang algengast er að á gerð II séu úrfellingarmerkin misstór, sjá mynd 4. Á því er auðvelt að greina milli gerðar II og gerðar III. Þessi einkenni eru þó ekki einhlít, því að áðurnefndu 10 aura spjöldin tvöföldu eru einnig til, þar sem úrfellingarmerkin eru nokkuð jafnstór og líkjast meira úrfellingarmerkjunum á gerð III. En þá er punktur á eftir ’03 svo að naumast þarf að velkjast í vafa um að þar sé á ferðinni gerð II. Nú mætti að vísu hugsa sér þann möguleika að þessi punktur kynni að hafa brotnað af sátrinu í notkun og fyrir bragðið kunni að vera til einhver eintök punktlaus. Líkurnar til þess eru hins vegar nauðalitlar samkvæmt þeim athugunum, sem gerðar hafa verið. Rétt er að geta þess að L-ið í GILDI er bæði til brotið og eins af stærra letri en hinir stafirnir. Sjá mynd 5. Þetta held ég að nægi hverjum, sem vill auðveldlega og í sjónhendingu greina á milli gerðanna II og III.
Á sýningunni Frímerki 83, sem haldin var í Hafnarfirði, haustið 1983, sýndi ég í tveimur römmum yfirprentunina Í GILDI ’02-’03 og kom það, sem hér hefur verið rakið, þar fram ásamt ýmsu öðru er snertir þessa yfirprentun.
Meðan á sýningunni NORDIA 84 stóð, nú síðastliðið sumar, hafði ég orð á því við danska dómarann Toke Nørby er við skoðuðum safnið mitt, hversu auðvelt það er að greina á milli gerðar II og gerðar III. Hvatti hann mig eindregið til að koma þessum upplýsingumá framfæri meðal safnara. Hafði ég það reyndar í huga, því ég hef orðið var við þó nokkurn áhuga á íslenzkum bréfspjöldum, bæði þegar ég hef skrifað um þau hér í Grúskið og eins í félagsrit Islandssamlaran í Svíþjóð. Er það reyndar ekki vonum fyrr, því ég hef oft undrast það hversu afskipt íslenzk bréfspjöld hafa verið meðal safnara, sem annars hafa verið nánast alætur á allt, er varðar íslenzka fílatelíu. Hefur þetta afskiptaleysi valdið því að lítið hefur birzt á prenti um athuganir safnara. Gaman var því að sjá í nýjasta eintaki félagsrits Islandssamlarna, Rapport nr. 58, að safnararnir Leif Fuglsig frá Danmörku og Jap Jongenburger frá Hollandi, hafa sameiginlega komizt að niðurstöðu, sem að hluta snerta mínar athuganir. Þótt skoðun þeirra hafi ekki, að því er mér virðist, beinzt að því að greina milli gerða, þá hafa þeir komizt að sömu niðurstöðu og ég, að gerð II er tvenns konar: annars vegar lítið úrfellingarmerki og stórt og hins vegar tvö nokkuð jafnstór úrfellingarmerki.
Ekki er hægt að skiljast svo við yfirprentunina Í GILDI '02-'03 að ekki sé minnzt á gerð IV. Þar er um að ræða nýprent, reyndar bæði spjalda og yfirprentana, því að á annan hátt var ekki unnt að verða við óskum aðalpóststjórnarinnar dönsku um ákveðið upplag til þess að geta fullnægt beiðnum erlendra póststjórna innan Alþjóðapóstsambandsins. Á þessari nýju gerð er bilið milli lína 4.5 mm, úrfellingarmerkin jöfn að stærð og nokkuð smágerð og punktur á eftir '03. Sjá mynd 6.
Ýmislegt fleira mætti tína til í sambandi við yfirprentunina í GILDI '02-'03. Verður það látið bíða betri tíma. Ég vona aö lokum að það, sem hér hefur verið sett á blað, geti orðið til þess að einhverjum verði auðveldara en áður að átta sig á þeim mun, sem fram kemur og sýnilegur er á gerðunum I, II, III og IV.
Hálfdan Helgason
|
|
Home
Tenglar innanhúss
Nokkrar gamlar greinar um íslensk bréfspjöld
Burðargjöld bréfspjalda
Tenglar utanhúss
Landssamband íslenskra frímerkjasafnara
FIP Postal Stationery Commission
The Postal Stationery Society
Postal Stationery of Denmark
|