Íslenskur heilpóstur
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf
Einföld spjöld Tvöföld spjöld Spjaldbréf Prentspjöld Loftbréf

GRÚSK 10. árg., 1. tbl. 1988 (Nr. 20)

Yfirprentunin Í GILDI og 3/5 á bréfspjöldum
Fyrir fáeinum árum ritaði ég greinarkorn í Grúsk (nr. 10) um yfirprentunina Í GILDI á bréfspjöldum. Yfírprentun þessi, hvort heldur hún er á frímerkjum eða bréfspjöldum, hefur af mörgum verið litin heldur óhýru auga og menn hafa velt því fyrir sér hvað hafi í raun búið á bak við þá ákvörðun, sem þarflaus sýnist með öllu, að yfirprenta þau frímerki og bréfspjöld, er þá báru auraverðgildi. En hvað sem um þá ákvörðun má segja, þá verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd, og hefur raunar ekki verið gert, að Í GILDI útgáfan hefur verið mörgum safnaranum verðugt rannsóknarefni.
Í frímerkjalistum er engar upplýsingar að finna um upplag yfirprentaðra bréfspjalda. Því þótti undirrituðum ástæða til þess að reyna að komast að því hvort ekki reyndist unnt að bæta þar úr. Þessar athuganir fóru reyndar fram fyrir um það bil þremur árum og í ljós kom, er höfuðbækur Félagsprentsmiðjunnar í Reykjavík voru skoðaðar, frá þeim tíma er yfirprentunin átti sér stað, að vissar upplýsingar var þar að finna þótt ekki væru þær tæmandi. Eftirfarandi færslur í höfuðbók prentsmiðjunnar eru trúlega einu upplýsingarnar, sem til eru um upplag í GILDI yfírprentaðra bréfspjalda:

Póststofan í Reykjavík
1902An. Yfirprentuð bréfspjöld Krónur
Nóv. 17.6000 st 10 aur bréfspjöld (tvöföld / double)24.00
Des.2. 387st 10 aur do (söfnunarsjóður) 0.77
9.7400 st 10 aur bréfspjöld (einföld / single) 14.80

200 st l0 aur bréfspjöld (tvöföld / double) 0.80

7800 st 8 aur bréfspjöld (einföld / single)15.60
10. 208 st 5 aur bréfspjöld (Bankinn) 0.42
24. 4892 st Bréfspjöld af ýmsum sortum fyrir D. Thomsen 9.79
1903
Jan. 22.3200 st Bréfspjöld (Thomsen) 6.40
26/2 4600 st Bréfspjöld 9.20
Maí 13. 375 st bréfspjöld 0.75
(Upplýsingum um yfirprentun frímerkja er hér sleppt)

Hugmyndir hafa verið uppi, einkum meðal erlendra safnara, að þegar ákvörðunin um yfirprentunina var tekin hafi streymt til prentsmiðjunnar, og þá ekki hvað síst erlendis frá, bréfspjöld til yfirprentunar. Bækur Félagsprentsmiðjunnar bera það hinsvegar glögglega með sér að öll yfirprentun hefur farið í gegnum Póststofuna og einstaklingar hafa orðið að eiga sín viðskipti við hana en ekki prentsmiðjuna. Þessi háttur var einnig hafður á hvað varðar frímerkin eins og sjá má.
    Ljóst er að ekki verður af færslum í höfuðbók Félagsprentsmiðjunnar ráðið endanlega um upplag hvers verðgildis né um upplag prentgerða, sem eru þrjár og aðgreindar sem gerð I, gerð II og gerð III eins og kunnugt er. Í áðurnefndri grein minni í Grúski nr. 10 gerði ég reyndar grein fyrir því að gerð II er til í tveim mismunandi gerðum á 10 aura spjöldum tvöföldum. Annars vegar þar sem úrfellingarmerkin eru nokkuð jafnstór, og kalla ég þá gerð hér II A, og hins vegar þar sem seinna úrfellingarmerkið er stærra en hið fyrra og kalla ég þá gerð hér II B. Í framhaldi af þessu leyfi ég mér að setja fram eftirfarandi tilgátu: Yfirprentun 10 aura spjaldanna tvöföldu sem fram fór í nóv. 1902 hefur verið gerð með prentsátursgerð II A, yfirprentanirnar, sem fram fóru frá 2. til 10. des. voru af gerð IIB, spjöldin, sem yfirprentuð voru frá 24. des. og fram til 26. feb. 1903, voru prentuð með gerð I og yfirprentunin þann 13. maí var af gerð III. Eins og áður sagði er hér aðeins um tilgátu að ræða og ekki ætla ég að rökstyðja þetta að öðru leyti en því að ólíklegt er að mismunandi prentsátur hafi verið í notkun samtímis og að vitað er að gerð III er afar sjaldgæf.
Yfirprentuð bréfspjöld, notuð, eru fágæt og helst er að finna áramótakveðju frá Thomsens Magasíni á 5 aura spjöldum en þau eru auðþekkjanleg á fallegri rithönd sendanda.
Eins og söfnurum flestum er kunnugt hafði láðst að senda alþjóðapóststofnuninni í Bern sýnishorn frímerkja með yfirprentuninni Í GILDI svo sem tilskilið var og eins var um bréfspjöldin. Þessu var bjargað hvað frímerkin varðar með því að endurprenta þau hjá Thiele í Kaupmannahöfn. Þó var pappírsgerðin önnur og nýtt vatnsmerki kom til sögunnar. Merkin voru síðan yfirprentuð hjá Félagsprentsmiðjunni. Einhverra hluta vegna voru bréfspjöldin ekki endurprentuð, heldur varð að búa til ný spjöld, sem eru í nokkru frábrugðin þeim eldri þótt yfirbragð sé hið sama. Ýmsir hafa staðið í þeirri trú að yfirprentunin, sem einnig er frábrugðin þeim fyrri, hvað línubil varðar, hafi líka farið fram í Kaupmannahöfn. En svo er ekki. Í áðurnefndum höfuðbókum Félagsprentsmiðjunnar fann ég eftirfarandi færslur:
1904 Landssjóðurkrónur
Des. 3. An. yfirprentun á frímerkjum 330 arkir12.00

Do bréfspjöld 6000 st (NB 3000 einföld og 3000 tvöföld) 18.00
Eins og kunnugt er eru verðgildin þrjú af einföldum bréfspjöldum, þ.e. 5 aurar, 8 aurar og 10 aurar og sömu verðgildin eru á þeim tvöföldu. Er því ljóst að prentuð voru 1000 spjöld af hverri gerð. Sé gert ráð fyrir því að Bern hafi fengið sín 300 eintök af hverri gerð, eins og um var beðið, sést að þessi spjöld eru með þeim sjaldgæfustu, sem gerð voru, upplagið aðeins 700 stk af hverju verðgildi.
Vafalaust hafa safnarar á fyrstu árum aldarinnar verið á þeirri skoðun að nú væri póststjórnin búin að fá nóg af æfintýrum vegna yfirprentana, því nokkrum árum áður hafði hún orðið fyrir töluverðri gagnrýni vegna yfírprentunarinnar 3/þrír og ýmsir höfðu bæði eitt og annað um Í GILDI yfirprentunina að segja. Um það allt má lesa í "Jónsbók", Íslensk frímerki í hundrað ár. En þó liðu ekki nema örfá ár þangað til að enn var brugðið á það ráð að yfirprenta bréfspjöld.
Frá því í september 1902 höfðu verið í notkun bréfspjöld, bæði einföld og tvöföld, með mynd Kristjáns konungs níunda, með verðgildunum 3, 5, 8 og 10 aurar. Var upplag hvers verðgildis einföldu spjaldanna 9000 eintök.
Útgáfan frá 1905 til vinstri.
Bréfspjöld þessi voru vinsæl meðal almennings og mikið notuð svo að í ágústmánuði 1905 varð að fá til landsins nýja sendingu 3ja og 5 aura einfaldra spjalda og var upplag þeirra 6000 af 3ja aura og 10000 af 5 aura spjöldunum. Þessi spjöld voru lítillega frábrugðin þeim fyrri svo sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Söfnurum hefur hins vegar verið ljóst að einnig er til þriðja gerðin af 5 aura spjöldum einföldum. Er hún lítið eitt minni en hinar fyrri eða 140x89 mm á móti 144x90 mm auk annarra frábrigða, sem einkenna þessa prentun.
Í ársbyrjun 1907 var svo komið að skortur var orðinn á 3ja aura verðgildi, sem var innanbæjar burðargjald. Var því brugðið á það ráð að yfirprenta 5 aura spjöld en töluvert var enn til af upplaginu frá l905. Fyrir utan það að þessi yfirprentun var til og það í töluverðum mæli, var lítið vitað og í höfuðbókum Félagsprentsmiðjunnar fann ég ekkert, sem benti til þess að hún hefði verið framkvæmd þar. En nokkru síðar, er ég var að fara í gegnum gömul skjöl á Þjóðskjalasafninu, komu upp í hendur mér, upplýsingar um sendingar bréfspjalda og spjaldbréfa frá Kaupmannahöfn til póststjórnarinnar. Þar kom í ljós að þriðja sending 5 aura spjalda, einfaldra, hafði komið til landsins 16. janúar 1907 og var upplagið hvorki meira né minna en 20000 eintök. Var þar nú án efa fundin þriðja gerðin (140x89 mm) en það er einmitt hún, sem er algengust með yfirprentuninni. Virðist undarleg sú ráðstöfun í þeim skorti, sem var á 3ja aura spjöldum að panta svona mikið af fimm aura spjöldum og þurfa svo að yfirprenta þau. En það fannst meira í þessum gömlu skjölum á Þjóðskjalasafninu. Upp úr kafinu kom einnig reikningur frá Prentsmiðjunni Gutenberg fyrir yfirprentunina 3/5 eins og sjá má á meðfylgjandi mynd auk þess að þar er tilgreint hvenær prentun átti sér stað, í hve miklum mæli og það sem athyglisverðast er: að búin voru til 3 prentmyndamót. Af reikningnum er ljóst að þann 9. janúar 1907 er búið að yfirprenta 5000 bréfspjöld af sendingunni frá 1905 og er því upplag þess grunnkorts einnig 5000 stk. Þann 22. febrúar er svo lokið við að yfirprenta 15000 stk af sendingunni frá 16. janúar og 15. apríl 2500 stk í viðbót. Þriðja prentun 5 aura bréfspjaldsins með mynd Kristjáns konungs níunda er því aðeins 2500 stk og er þar komin skýring á því hversu sjaldséð það spjald er.
Þar sem sýnt var að þrjú prentmyndamót voru búin til fyrir yfirprentunina var nú forvitnilegt að kanna hvort sýnilegan mun mætti finna á yfirprentuðum spjöldum og á meðfylgjandi mynd má sjá að svo er. Augljósasti munurinn er á efri kúlunni í tölunni 3. Á mynd 1 (gerð I) er hún jafnstór þeirri neðri og þar er miðjuoddur tölunnar skáskorinn, á mynd 2 (gerð II) er hún heldur minni og minnst er hún á mynd 3 (gerð III). Ef lögð er leitarskífa (position finder) yfír prentfletina má sjá að afstaða tölunnar í fletinum er einnig lítið eitt mismunandi. Gerð I hef ég fundið á yfirprentuðu spjöldunum frá 1905 en gerð II og gerð III á sendingunni frá 16. jan. 1907. Bið ég safnara, sem staðfest geta athuganir mínar eða hrakið, að koma upplýsingum þar um á framfæri og helst hér í Grúski.
Hálfdan Helgason




Home

Web links
Some old articles (mine) on
Icelandic Postal Stationery

Postal Stationery Rates


Interesting links
Icelandic Philatelic Society
FIP Postal Stationery
Commission

The Postal Stationery Society
Postal Stationery of Denmark
My friend Toke Nørby,
Denmark


This website is made by Hálfdan Helgason - Reykjavík - Iceland